Norræna félagið er gamalgróið félag í stöðugri endurnýjun. Það var stofnað árið 1922 til að efla samstarf og vináttutengsl Íslendinga og annarra Norðurlandabúa og er sú hugsjón hið fasta leiðarljós félagsins.

Norræna félagið starfar í 30 félagsdeildum um allt land. Starf félagsdeilda er mjög fjölbreytt, en víða er kjölfesta deildanna norrænt vinabæjasamstarf, ungmennaskipti, viðburðahald og samstarf við viðkomandi sveitarfélag um norræn verkefni. Norræna félagið er félag í vexti og fjölgar félagsdeildum reglulega.

Skrifstofa Norræna félagsins á Íslandi veitir félagsmönnum og öllum almenningi á Íslandi góða og faglega þjónustu um Norðurlönd og norrænt samstarf. Starfsfólk skrifstofunnar og félagskjörnir fulltrúar sinna fjölbreyttum verkerfnum sem öll hafa að markmiði að styðja við samstarf Norðurlanda á flestum sviðum.

Meðal viðfangsefna Norræna félagsins eru:

  • Nordjobb – sumarvinna og ævintýri á Norðurlöndum
  • Halló Norðurlönd – upplýsingaþjónusta um réttindi og skyldur við búferlaflutninga milli Norðurlandanna
  • Norðurlöndin í bíó – frábært kennsluefni um tungumál Norðurlandanna, kvikmyndir og samfélag
  • Norræna bókasafnavikan – stærsti menningarviðburður á Norðurlöndunum
  • Snorraverkefnin – fjölbreytt samskipti við Vestur-Íslendinga, ævintýri í Vesturheimi
  • Tungumálanámskeið, s.s. íslenska fyrir Norðurlandabúa, samtalsnámskeið í tungum Norðurlanda.
  • Útgáfa – göngukort um goðahverfið í Reykjavík
  • Fjölbreytt starfsemi í félagsdeildum um allt land – vinabæjamót og margt fleira

Norræna félagið á Íslandi starfar náið með systurfélögum annarstaðar á Norðurlöndunum. Samstarfsvettvangur félaganna nefnist Samband Norrænu félaganna / Foreningerne Nordens Forbund og er skrifstofa þess staðsett í Kaupmannahöfn í Danmörku.