Sungið í skógarsal Háabjalla

Viðburður í umsjón Norræna félagsins í Vogum og skógræktarfélagsins Skógfells, hluti af Fjölskyldudögum í Vogum.

Allir syngja, textar á blaði. Þemu: sumarkvöld og norræn vísnahefð. Þorgerður Ása Aðalsteinsdóttir syngur norræn vísnalög, mörg með textum á íslensku, m.a. í þýðingu föður síns, Aðalsteins Ásbergs. Hún er menntuð í norrænum vísnasöng og hefur víða komið fram, oft með Vigdísi Hafliðadóttur undir nafninu Vísur og skvísur. Eyþrúður Ragnheiðardóttir spilar á rafmagnsfiðlu/viólu, ýmist ein, eða með föður sínum Þorvaldi Erni, eða með fjöldasöng.

Félagar úr söngfélaginu Uppsiglingu leiða fjöldasöng og spila með. Fleiri koma fram með stutt atriði. Þetta verður fjölbreytt! Gestir grilla sér spýtubrauð yfir eldi. Mjög vinsælt. Gengið úr Vogum eða ekið af Grindavíkurvegi á móts við Seltjörn. Einnig jeppafært úr Vogum undir Reykjanesbraut. Það spáir sól og blíðu. Verðum auk þess í skjóli trjáa. Gott að hafa með teppi eða eitthvað til að setjast á því ekki verða bekkir fyrir alla.

Myndin er frá sams konar atburði í fyrra, en þá komu fram Gunnar Guttormsson söngvari og Sigurður Alfonsson harmónikuleikari. Einnig Þorvaldur Örn Árnason og Eyþrúður Ragnheiðardóttir, auk þess fjöldasöngur.