Norrænu félögin vilja auknar áherslur á norrænt samstarf

Ef sýn norrænu forsætisráðherranna um að Norðurlöndin verði sjálfbærasta og samþættasta svæði heims á að verða að veruleika þarf meira fjármagn til norræns samstarfs.

Norrænu félögin fagna auknum áherslum á loftslagsmál og græn gildi í framtíðarsýninni „Vision 2030“ en þær eru í  fullu samræmi við vinnu og áherslur Norðurlandanna í umhverfismálum síðustu áratugi. En auknar áherslur á umhverfismál eiga ekki að vera á kostnað menningarsamstarfs og tungumálaskilningi sem er límið í norrænu samstarfi. Auðveldur aðgangur að samnorrænni menningu, svipuð lífsviðhorf og þekking á skandinavísku tungumáli er það sem gerir samstarf þjóðanna árangursríkt og grunnurinn að því að önnur norræn verkefni gangi vel. Það örlar á þeirri ranghugmynd hjá ráðamönnum norræns samstarfs að samhljómur þjóðanna sé sjálfsprottinn sem er víðs fjarri. Það þarf að hlú að norrænu samstarfi og styrkja í töluvert meiri mæli en hefur verið gert síðustu ár af hinu opinbera. Styrking samstarfs Norðurlandanna þarf að eiga sér stað hjá grasrótinni, milli opinberra aðila, þjóðþinga og ríkisstjórna.

Í fjárhagsáætlun Norrænu ráðherranefndarinn hafa samstarfsráðherrarnir sett fram mjög mikla lækkun á fjárframlögum til menningarmála árið 2022. Norrænu ríkisstjórnirnar verða að hlusta á háværa gagnrýni frá öllum Norðurlöndunum á þá ákvörðun og þá hafa allir flokkahópar Norðurlandaráðs mótmælt niðurskurðinum. Menningarlífið varð illa fyrir barðinu á kórónuveirufaraldrinum og það þarf stuðning og stöðugleika til að ná fyrri styrk. Niðurskurður á norrænu framlagi ætti ekki að eiga sér stað næstu ár.

Faraldurinn hamlaði einnig samskiptum þvert á landamæri Norðurlandanna. Til að endurheimta fyrri styrk og traust milli landanna sem veiktist til muna með lokunum landamæra og skorti á samræmingu aðgerða stjórnvalda verður að setja meira fé í þá sem vinna í þágu norræns samstarfs. Allar kannanir sýna mikinn stuðning íbúa landanna við norrænt samstarf. Ráðherrar og aðrir stjórnmálamenn úr öllum flokkum frá öllum Norðurlöndunum hafa við ólík tækifæri bæði fyrir og í heimsfaraldrinum talað um mikilvægi norræna samstarfssins. Brestir og veikleikar samstarfins virðast þó koma í ljós þegar á reynir, t.d. í flóttamannakreppunni 2015 og þegar ríkisstjórnir landanna og yfirvöld fóru hvert sína leið án nokkurs sýnilegs samráðs eða samhæfingu í baráttu við heimsfaraldurinn, með miklum skaða, ekki síst fyrir íbúa sem búa nálægt landamærum og eða vinna þvert á landamæri.

Brestir í opinberu samstarfi Norðurlandanna koma ekki á óvart ef rýnt er í þróun fjárframlags til norræns samstarfs. Ef miðað er við aukningu vergrar landsframleiðslu hefur framlagið minnkað umtalsvert síðustu áratugina. Norrænu félögin lýsa eftir aukningu á framlagi á fjárlögum allra Norðurlandanna til norræns samstarfs. Annarsvegar er krafa um einskiptisframlag til að rétta af hallann sem hefur orðið á síðustu 25 árum og hinsvegar er krafa um að í framhaldinu verði haldið í við verga landsframleiðslu til að koma í veg fyrir framtíðarhalla fjárframlaga.

Aukið framlag er hægt að nota til að fjármagna nýjar áherslur á loftslagsmál og umhverfismál sem yrði til þess að ekki þarf að skera niður framlag til menningar- menntunar- og tungumálasamstarfs.

Þörfin fyrir norrænt samstarf leynist víða og ber helst að nefna samstarf um samfélagslegt öryggi þegar kemur að auknum áskorunum til að mynda innan heilbrigðiskerfisins en ekki bara þar heldur líka gagnvart netárásum, náttúruhamförum og öðrum utanaðkomandi hættum.

Ef við eigum einhvern tímann að endurupplifa norræna samstarfið sem grunnur var lagður að fyrir tæplega 70 árum af framsýnum stjórnmálamönnum, með stofnun Norðurlandaráðs og svo rúmlega 20 árum seinna Norrænu ráðherranefndina, þá verður að koma til meiri áhugi, ný hugsun og meira fé. 

Kaupmannahöfn, 22. september 2021

Samtök Norrænu félaganna FNF

sign

Lars Barfoed

Norræna félaginu Danmörku, formaður FNF

Aðrir stjórnarmenn í forsætisnefnd FNF;

Tone Wilhelmsen Trøen, Norræna félagið Noregi, Åsa Torstensson, Norræna félagið Svíþjóð, Hrannar Björn Arnarsson, Norræna félagið á Íslandi, Juhana Vartiainen, Norræna félagið í Finnlandi, Turid Christophersen, Norræna félagið Færeyjum, Maiken Poulsen Englund, Norræna félagið Álandseyjum, Irene Jeppson, Norræna félagið Grænlandi, Jens Kristian Øvstebø, Ungmennadeild Norrænu félaganna,