Norrænn rithöfundaskóli fyrir unglinga 2016

1. – 6. ágúst fyrir ungmenni á aldrinum 15 til 18 ára

Lýðháskólinn Nordens folkhögskola á Biskops-Arnö í Svíþjóð býður ungmennum frá öllum Norðurlöndum að taka þátt í Norrænum rithöfundaskóla fyrir unglinga. Námskeiðið er ókeypis og undir handleiðslu sjö norrænna rithöfunda sem sjá til þess að vikan sé hlaðin lestri, skriftum og samræðum um texta auk nýrra kynna.

Þetta er einstakt tækifæri fyrir alla sem hafa áhuga á skrifum og langar til að kynnast öðrum með sömu drauma og áhugamál. Umsóknarfrestur er til 17. apríl.

Smelltu hér til að nálgast frekari upplýsingar!

Framhaldsnámskeið í sænsku – vormisseri 2016

Framhaldsnámskeið í sænsku verður haldið á vegum Norræna félagsins í mars/apríl 2016. Á námskeiðinu verður lögð áhersla á orðaforða og hagnýta kunnáttu. Kennari er Adolf Hólm Petersen.

Námskeiðið hefst 29. mars og lýkur 26. apríl: kennt verður á þriðjudögum kl. 18:00-19:30 og er námskeiðið alls fimm skipti. Kennslan fer fram í húsakynnum Norræna félagsins á Óðinsgötu 7, 101 Reykjavík.

Skráning fer fram á netfanginu thorgunnur@norden.is eða í síma 551-0165. Námskeiðið er eingöngu ætlað félagsmönnum Norræna félagsins sem greiða 8.600 krónur í þátttökugjald. Námskeiðið fellur niður ef lágmarksþátttökufjöldi næst ekki.

Auðvelt er að gerast félagi í Norræna félaginu. Félagsaðild kostar 3.500 kr. á ári / 1.750 kr. fyrir 18-27 ára og 67 ára og eldri.

Line Barfod í Norræna húsinu

Line Barfod, lögfræðingur og fyrrverandi þingmaður Enhedslisten á Danska þjóðþinginu, heldur erindi um mansal – þrælahald nútímans, í Norræna húsinu, föstudaginn 26. febrúar, kl. 17.00.

Viðburðurinn er haldinn á vegum Norræna félagsins, Norræna hússins og Vinstri grænna og mun fara fram á íslensku og dönsku. Eyrún Eyþórsdóttir, lögreglufulltrúi og mannfræðingur verður kynnir fundarins. Opnað verður fyrir spurningar að loknu erindi Line og mega þær vera á íslensku, ensku eða dönsku.

“Börn eru seld til að nota líffæri þeirra, börn og fullorðnir eru seld til að betla og stela, fólk er selt í nauðungarvinnu í fiskiðnaði, landbúnaði og byggingarvinnu. Það er algengt á Norðurlöndunum,” sagði Line Barfod í viðtali við Boga Ágústsson á RúV, fyrir fjórum árum.

Line hefur unnið mikið starf í baráttunni gegn mansali og þrælahaldi sem þingmaður og fulltrúi Norðurlandaráðs m. a.  í samstarfi ríkjanna sem liggja að Eystrasalti og lagt fram tillögur til að bæta úr.

Þetta er í annað skipti sem Line heldur erindi um þrælahald nútímans fyrir Íslendinga.  Síðast talaði  hún á vegum Norræna félagsins í Reykjavík, fyrir fjórum árum og vakti umfjöllun hennar mikla athygli. Þá sagði Line að munurinn á þrælahaldi í gamla daga og þrælahaldi  nú, væri meðal annars sá að áður var farið betur með þrælana til að þeir entust sem lengst, nú væru þeir frekar einnota, enda framboðið mikið.

Line Barfod verður hér á landi á samráðsfundi Vinstri grænna  og leiðtoga evrópskra vinstri flokka um flóttamannavandann yfir helgina.  

Björg Eva Erlendsdóttir, veitir nánari upplýsingar í síma 896 1222.

Nordjobb – opið fyrir umsóknir 2016!

Nordjobb er samnorrænt verkefni sem útvegar ungu fólki á aldrinum 18-28 ára sumarvinnu og húsnæði á hinum Norðurlöndunum, ásamt því að skipuleggja fjölbreytta tómstunda- og menningardagskrá fyrir Nordjobbara í hverju landi fyrir sig.
 
Fjöldi íslenskra ungmenna fær sumarvinnu á vegum Nordjobb ár hvert, en einnig hefur verið vinsælt meðal íslenskra atvinnurekenda að taka á móti hressum ungmennum frá hinum Norðurlöndunum.

Nordjobb gerir ungu fólki kleift að kynnast tungumáli og menningu nágrannalanda, öðlast nýja reynslu og víkka sjóndeildarhringinn. Með því að ráða Nordjobbara frá Norðurlöndunum stuðla atvinnurekendur að því að efla tengslin milli frændþjóðanna og veita ungu fólki einstakt tækifæri.

Umsóknartímabilið í Nordjobb er 5. janúar – 31. maí 2016. 

Hægt er að sækja um heimasíðu Nordjobb: http://nordjobb.org/is/.

Umsókn Nordjobbara: http://nordjobb.org/is/ansoekare/ansoekningsformulaer

Umsókn atvinnurekanda: http://nordjobb.org/is/arbetsgivare/registrera-arbetsplats.

Vakni spurningar í tengslum við Nordjobb má senda póst á netfangið island@nordjobb.org eða reykjavik@nordjobb.org.

Grunnnámskeið í sænsku – vormisseri 2016

Saenski-faninnGrunnnámskeið í sænsku verður haldið á vegum Norræna félagsins í febrúar/mars 2016. Á námskeiðinu verður lögð áhersla á orðaforða og hagnýta kunnáttu.

Námskeiðið hefst 16. febrúar og lýkur 15. mars: kennt verður á þriðjudögum kl. 18:00-19:30 og er námskeiðið alls fimm skipti. Kennslan fer fram í húsakynnum Norræna félagsins á Óðinsgötu 7, 101 Reykjavík. Kennari er Adolf Hólm Petersen.

Skráning fer fram á netfanginu thorgunnur@norden.is eða í síma 551-0165. Námskeiðið er eingöngu ætlað félagsmönnum Norræna félagsins sem greiða 8.600 krónur í þátttökugjald. Námskeiðið fellur niður ef lágmarksþátttökufjöldi næst ekki.

Auðvelt er að gerast félagi í Norræna félaginu. Félagsaðild kostar 3.500 kr. á ári / 1.750 kr. fyrir 18-27 ára og 67 ára og eldri.

Framhaldsnámskeið í sænsku verður haldið í kjölfar grunnnámskeiðsins, sé áhugi fyrir hendi. Það yrði haldið á tímabilinu 29. mars – 26. apríl – einnig á þriðjudögum kl. 18:00-19:30.

Matarsóunarverkefni Norden i Skolen

Samnorræna skólasíðan, Norden i Skolen, starfrækir spennandi verkefni fyrir skóla á Norðurlöndunum undir yfirskriftinni „Baráttan gegn matarsóun“.

Kennarar geta skráð bekki til leiks á heimasíðu Norden i Skolen og gengur verkefnið út á að hver bekkur vigti matarleifar sínar í eina kennsluviku með það að markmiði að draga úr matarsóuninni dag frá degi.

Á heimasíðunni getur einnig að líta nýtt námsefni frá Norden i Skolen undir yfirskriftinni „Auðlindir og hráefni“. Þemað inniheldur spennandi og fróðlega texta um landbúnað, skógrækt, fiskveiðar og búfjárrækt ásamt verkefnum.

Screen Shot 2015-12-02 at 11.22.34

Aðalfundur Norræna félagsins í Reykjavík

Norræna félagið í Reykjavík boðar til aðalfundar  í Norræna húsinu, miðvikudaginn 25. nóvember kl. 17.00, . Fundurinn er öllum opinn og nýir félagar boðnir sérstaklega velkomnir.

Dagskrá fundarins:

  1. Kosning fundarstjóra og ritara.
  2. Skýrsla stjórnar um störf og fjárhag félagsdeildarinnar.
  3. Kosning stjórnar, varastjórnar og endurskoðenda fyrir næsta starfsár,  sbr. 9. gr.
  4. Kosning fulltrúa og varamanna á sambandsþing samkvæmt 14.gr.
  5. Önnur mál.

Kynning á tilboðum um Grænlandsferð fyrir félaga í Norræna félaginu. Verð á leiguflugi og verð á áætlunarflugi. Aukið samstarf við félagsdeildir úti á landi. Kynning á jólaskemmtun Reykjavíkurdeildar á Óðinsgötu 4. desember.

Nánari upplýsingar veitir Björg Eva Erlendsdóttir, formaður Norræna félagsins í Reykjavík. Sími 896-1222.