Nordjobb – opið fyrir umsóknir 2016!

Nordjobb er samnorrænt verkefni sem útvegar ungu fólki á aldrinum 18-28 ára sumarvinnu og húsnæði á hinum Norðurlöndunum, ásamt því að skipuleggja fjölbreytta tómstunda- og menningardagskrá fyrir Nordjobbara í hverju landi fyrir sig.
 
Fjöldi íslenskra ungmenna fær sumarvinnu á vegum Nordjobb ár hvert, en einnig hefur verið vinsælt meðal íslenskra atvinnurekenda að taka á móti hressum ungmennum frá hinum Norðurlöndunum.

Nordjobb gerir ungu fólki kleift að kynnast tungumáli og menningu nágrannalanda, öðlast nýja reynslu og víkka sjóndeildarhringinn. Með því að ráða Nordjobbara frá Norðurlöndunum stuðla atvinnurekendur að því að efla tengslin milli frændþjóðanna og veita ungu fólki einstakt tækifæri.

Umsóknartímabilið í Nordjobb er 5. janúar – 31. maí 2016. 

Hægt er að sækja um heimasíðu Nordjobb: http://nordjobb.org/is/.

Umsókn Nordjobbara: http://nordjobb.org/is/ansoekare/ansoekningsformulaer

Umsókn atvinnurekanda: http://nordjobb.org/is/arbetsgivare/registrera-arbetsplats.

Vakni spurningar í tengslum við Nordjobb má senda póst á netfangið island@nordjobb.org eða reykjavik@nordjobb.org.

Grunnnámskeið í sænsku – vormisseri 2016

Saenski-faninnGrunnnámskeið í sænsku verður haldið á vegum Norræna félagsins í febrúar/mars 2016. Á námskeiðinu verður lögð áhersla á orðaforða og hagnýta kunnáttu.

Námskeiðið hefst 16. febrúar og lýkur 15. mars: kennt verður á þriðjudögum kl. 18:00-19:30 og er námskeiðið alls fimm skipti. Kennslan fer fram í húsakynnum Norræna félagsins á Óðinsgötu 7, 101 Reykjavík. Kennari er Adolf Hólm Petersen.

Skráning fer fram á netfanginu thorgunnur@norden.is eða í síma 551-0165. Námskeiðið er eingöngu ætlað félagsmönnum Norræna félagsins sem greiða 8.600 krónur í þátttökugjald. Námskeiðið fellur niður ef lágmarksþátttökufjöldi næst ekki.

Auðvelt er að gerast félagi í Norræna félaginu. Félagsaðild kostar 3.500 kr. á ári / 1.750 kr. fyrir 18-27 ára og 67 ára og eldri.

Framhaldsnámskeið í sænsku verður haldið í kjölfar grunnnámskeiðsins, sé áhugi fyrir hendi. Það yrði haldið á tímabilinu 29. mars – 26. apríl – einnig á þriðjudögum kl. 18:00-19:30.

Matarsóunarverkefni Norden i Skolen

Samnorræna skólasíðan, Norden i Skolen, starfrækir spennandi verkefni fyrir skóla á Norðurlöndunum undir yfirskriftinni „Baráttan gegn matarsóun“.

Kennarar geta skráð bekki til leiks á heimasíðu Norden i Skolen og gengur verkefnið út á að hver bekkur vigti matarleifar sínar í eina kennsluviku með það að markmiði að draga úr matarsóuninni dag frá degi.

Á heimasíðunni getur einnig að líta nýtt námsefni frá Norden i Skolen undir yfirskriftinni „Auðlindir og hráefni“. Þemað inniheldur spennandi og fróðlega texta um landbúnað, skógrækt, fiskveiðar og búfjárrækt ásamt verkefnum.

Screen Shot 2015-12-02 at 11.22.34

Aðalfundur Norræna félagsins í Reykjavík

Norræna félagið í Reykjavík boðar til aðalfundar  í Norræna húsinu, miðvikudaginn 25. nóvember kl. 17.00, . Fundurinn er öllum opinn og nýir félagar boðnir sérstaklega velkomnir.

Dagskrá fundarins:

  1. Kosning fundarstjóra og ritara.
  2. Skýrsla stjórnar um störf og fjárhag félagsdeildarinnar.
  3. Kosning stjórnar, varastjórnar og endurskoðenda fyrir næsta starfsár,  sbr. 9. gr.
  4. Kosning fulltrúa og varamanna á sambandsþing samkvæmt 14.gr.
  5. Önnur mál.

Kynning á tilboðum um Grænlandsferð fyrir félaga í Norræna félaginu. Verð á leiguflugi og verð á áætlunarflugi. Aukið samstarf við félagsdeildir úti á landi. Kynning á jólaskemmtun Reykjavíkurdeildar á Óðinsgötu 4. desember.

Nánari upplýsingar veitir Björg Eva Erlendsdóttir, formaður Norræna félagsins í Reykjavík. Sími 896-1222.

Bogi Ágústsson nýr formaður Norræna félagsins

Bogi Ágústsson var einróma kjörinn nýr formaður Norræna félagsins á sambandsþingi félagsins, helgina 7.-8. nóvember.  Sambandsþingið fór fram í Sveitafélaginu Ölfusi og Hveragerði.
Bogi tekur við formennsku af Ragnheiði H. Þórarinsdóttur sem gegnt hefur embætti formanns í sex ár. Bogi gegndi áður embætti varaformanns Norræna félagsins. 

Í nýrri stjórn Norræna félagsins sitja til næstu tveggja ára auk Boga þau: Kristján Sveinsson Reykjavík, varaformaður, Birna Bjarnadóttir Kópavogi, gjaldkeri, Jóngeir Hlinason Vogum, ritari, Birgit Schov Akureyri, Erna Sveinbjarnardóttir Garði, Hjördís Hjartardóttir Akranesi og Viðar Már Aðalsteinsson Reykjanesbæ. 

Í varastjórn eru Hilmar Ingólfsson Garðabæ, Sigríður Stefánsdóttir Skagaströnd, Sigurður Jónsson Sveitarfélaginu Ölfus, Sigurlín Sveinbjarnardóttir Garðabæ, Þórhildur Pálsdóttir Stykkishólmi, Þorlákur Helgason Selfossi og Þorvaldur S. Þorvaldsson Reykjavík. 

Formaður Norrænu upplýsingaskrifstofunnar á Akureyri er Birgit Schov
Formaður Vinabæjarnefndar er Sigurður Jónsson
Formaður Menningamálanefndar er Þórhildur Líndal
Formaður Skólanefndar er Þorlákur Helgason
Formaður Ritnefndar er Jóngeir Hlinason
Formaður Fjárhagsnefndar er Ragnheiður H. Þórarinsdóttir

Nýkjörin sambandsstjórn Norræna félagsins, ásamt framkvæmdastjóra félagsins.
Nýkjörin sambandsstjórn Norræna félagsins, ásamt framkvæmdastjóra félagsins.

Norrænar kvenímyndir

Oddný Sen kvikmyndafræðingur verður með fyrirlestur um kvenímyndir í norrænum kvikmyndum og sjónvarpsseríum fimmtudaginn 19. nóvember kl. 17.00, í húsakynnum Norræna félagsins í Reykjavík við Óðinsgötu.

Hún mun fjalla um þær breytingar sem sést hafa á birtingarmyndum kvenna í kvikmyndalist á Norðurlöndum og víðar, sem og sýna um þær dæmi. Einnig mun hún velta vöngum yfir því hvort nýjar kvenímyndir endurspegli breytta stöðu kvenna.

Allir velkomnir á fróðlegan fyrirlestur!  

Norræn bókasafnavika 9.-15. nóvember 2015

 Við vekjum athygli á hinni árlegu Norrænu bókasafnaviku sem haldin verður dagana 9.-15. nóvember næstkomandi. Skráning stendur yfir á heimasíðu bókasafnavikunnar http://www.bibliotek.org/is – þar sem hægt er að skrá bókasöfn, skóla og aðrar stofnanir til þátttöku endurgjaldslaust.

Þema hátíðarinnar í ár er „Vinátta á Norðurlöndunum“ og verða að vanda þrjár norrænar bækur í öndvegi ætlaðar ólíkum aldurshópum. Upplestrarbækurnar árið 2015 eru barnabókin Vöffluhjarta eftir norska höfundinn Mariu Parr, unglingabókin Skrifa í sandinn eftir færeyska höfundinn Marjun Syderbø Kjelnæs og Eglis Saga fyrir eldri lesendur. Hægt verður að nálgast textabrotin sem ætluð eru til upplestrar á heimasíðu hátíðarinnar. Þar verður einnig að finna svokallað Hugmyndakver sem hefur að geyma ýmsar upplýsingar um bókasafnavikuna ásamt fjölda sniðugra hugmynda sem hægt er að framkvæma í tengslum við hana.

Upplestur í Norræna húsinu, mánudaginn 9. nóvember kl. 10 – allir geta hlustað!

Í tilefni opnunar bókasafnavikunnar mun Norræna húsið ásamt Norræna félaginu standa fyrir upplestri í Norræna húsinu. Morguninn 9. nóvember kl. 10 mun leikarinn Ævar Þór Benediktsson (Ævar vísindamaður) lesa valda kafla úr barnabókinni Vöffluhjarta. Beint streymi (e. live stream) verður af viðburðinum í Norræna húsinu – svo að hver sem er getur farið inn á heimasíðu Norræna hússins, http://nordichouse.is/is/, til að hlýða á upplesturinn.

Þessi tækninýjung Norræna hússins gerir öllum kleift að fylgjast með, hvar sem þeir eru staddir á landinu (eða í heiminum). Nemendur gætu þá safnast saman á skólabókasafninu eða hreinlega hlustað í sinni eigin bekkjarstofu. Upptaka af upplestrinum verður öllum aðgengileg á heimasíðu Norræna hússins að upplestrinum loknum. Því verður hægt að spila upplesturinn hvenær sem er, hvort sem er í rauntíma eða síðar.

Vakni einhverjar spurningar má gjarnan senda póst á netfangið thorgunnur@norden.is.

Með von um góðar lestrarstundir!

Framhaldsnámskeið í sænsku – haustið 2015

Framhaldsnámskeið í sænsku verður haldið á vegum Norræna félagsins í nóvember 2015. Á námskeiðinu verður lögð áhersla á orðaforða og hagnýta kunnáttu. Kennari er Adolf Hólm Petersen.

Námskeiðið verður á fimmtudögum kl. 18:00-19:30. Það hefst 5. nóvember en lýkur 3. desember og er alls fimm skipti. Kennslan fer fram í húsakynnum Norræna félagsins á Óðinsgötu 7, 101 Reykjavík.

Skráning fer fram á netfanginu thorgunnur@norden.is eða í síma 551-0165. Námskeiðið er eingöngu ætlað félagsmönnum Norræna félagsins sem greiða 8.600 krónur í þátttökugjald.

Auðvelt er að gerast félagi í Norræna félaginu. Félagsaðild kostar 2.900 kr. á ári / 1.450 kr. fyrir 18-27 ára og 67 ára og eldri. Námskeiðið fellur niður ef lágmarksþátttökufjöldi næst ekki.