Tag Archives: fyrirlestur

Line Barfod í Norræna húsinu

Line Barfod, lögfræðingur og fyrrverandi þingmaður Enhedslisten á Danska þjóðþinginu, heldur erindi um mansal – þrælahald nútímans, í Norræna húsinu, föstudaginn 26. febrúar, kl. 17.00.

Viðburðurinn er haldinn á vegum Norræna félagsins, Norræna hússins og Vinstri grænna og mun fara fram á íslensku og dönsku. Eyrún Eyþórsdóttir, lögreglufulltrúi og mannfræðingur verður kynnir fundarins. Opnað verður fyrir spurningar að loknu erindi Line og mega þær vera á íslensku, ensku eða dönsku.

“Börn eru seld til að nota líffæri þeirra, börn og fullorðnir eru seld til að betla og stela, fólk er selt í nauðungarvinnu í fiskiðnaði, landbúnaði og byggingarvinnu. Það er algengt á Norðurlöndunum,” sagði Line Barfod í viðtali við Boga Ágústsson á RúV, fyrir fjórum árum.

Line hefur unnið mikið starf í baráttunni gegn mansali og þrælahaldi sem þingmaður og fulltrúi Norðurlandaráðs m. a.  í samstarfi ríkjanna sem liggja að Eystrasalti og lagt fram tillögur til að bæta úr.

Þetta er í annað skipti sem Line heldur erindi um þrælahald nútímans fyrir Íslendinga.  Síðast talaði  hún á vegum Norræna félagsins í Reykjavík, fyrir fjórum árum og vakti umfjöllun hennar mikla athygli. Þá sagði Line að munurinn á þrælahaldi í gamla daga og þrælahaldi  nú, væri meðal annars sá að áður var farið betur með þrælana til að þeir entust sem lengst, nú væru þeir frekar einnota, enda framboðið mikið.

Line Barfod verður hér á landi á samráðsfundi Vinstri grænna  og leiðtoga evrópskra vinstri flokka um flóttamannavandann yfir helgina.  

Björg Eva Erlendsdóttir, veitir nánari upplýsingar í síma 896 1222.

Norrænar kvenímyndir

Oddný Sen kvikmyndafræðingur verður með fyrirlestur um kvenímyndir í norrænum kvikmyndum og sjónvarpsseríum fimmtudaginn 19. nóvember kl. 17.00, í húsakynnum Norræna félagsins í Reykjavík við Óðinsgötu.

Hún mun fjalla um þær breytingar sem sést hafa á birtingarmyndum kvenna í kvikmyndalist á Norðurlöndum og víðar, sem og sýna um þær dæmi. Einnig mun hún velta vöngum yfir því hvort nýjar kvenímyndir endurspegli breytta stöðu kvenna.

Allir velkomnir á fróðlegan fyrirlestur!  

Dagskrá um norrænar verðlaunabækur

Jórunn Sigurðardóttir
Jórunn Sigurðardóttir

Velkomin á fyrirlestur Jórunnar Sigurðardóttur um bókmenntaverðlaun Norðurlandaráðs fimmtudaginn 20. nóvember, kl. 12 – 13 í Norræna húsinu.

Bókmenntaverðlaun Norðurlandaráðs hafa nú verið ahent í rúmlega hálfa öld. Þann 29. október síðastliðinn tók Finninn Kjell Westö við verðlaununum fyrir bók sína Hägring 38 eða Tálsýn 38 við hátíðlega athöfn í Bláa salnum í Ráðhúsi Stokkhólms.

Við sama tækifæri voru öll önnur verðlaun Norðurlandaráðs einnig afhent, þeirra á meðal Barna – og unglingabókmenntaverðlaun Norðurlandaráðs öðru sinni og féllu þau nú í hlut Norðmannanna Håkons Övreås og Öyvinds Torseter, höfunda texta og mynda í skáldsögunni Brune eða Brúni.

Jórunn Sigurðardóttir útvarpskona segir frá verðlaunabókunum og ýmsu öðru í tengslum við verðlaunin og val verðlaunabóka í gegnum tíðina en Jórunn hefur fylgst með tilnefningum bóka til Bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs í tæpa tvo áratugi.

Dagskráin er í boði Norræna félagsins og  fellur undir Norræna bókasafnaviku.

Kosningar í Svíþjóð – opinn fundur

val2014Þingkosningar fara fram í Svíþjóð sunnudaginn 14. september. Í tilnefni þess verður efnt til hádegisfundar um kosningarnar og sænsk stjórnmál fimmtudaginn 11. september kl. 12-13:15 í Norræna húsinu.

Margrét Atladóttir, blaðamaður á Aftonbladet í Svíþjóð, flytur erindi um kosningarnar og sænsk stjórnmál. Bosse Hedberg, sendiherra Svíþjóðar á Íslandi, flytur ávarp.

Í kjölfar þess verður rætt um stöðuna í sænskum stjórnmálum í pallborði með áhugafólki um stjórnmál í Svíþjóð.

Þátttakendur verða:
Drífa Snædal, framkvæmdastjóri Starfsgreinambands Íslands
Ingi Freyr Vilhjálmsson, blaðamaður á DV
Sigríður Ingibjörg Ingadóttir, þingkona

Upplýsingaskrifstofan Norðurlönd í fókus, Norræna félagið á Íslandi, sendiráð Svíþjóðar á Íslandi og Alþjóðamálastofnun Háskóla Íslands standa að fundinum.

Fundurinn verður á ensku og íslensku og er öllum opinn.

Fundarstjóri: Sigurður Ólafsson, verkefnastjóri Norðurlanda í fókus á Íslandi.

Lógó: Sænska sendiráðið, Norræna félagið, Norræna húsið og AMS (hreint)

Frekari upplýsingar á vefsíðum Norræna hússins, nordice.is, Norræna félagsins, norden.is og Alþjóðamálstofnunar, ams.hi.is