Tag Archives: menning

Grindavíkurdeild endurvakin á Norrænum degi

Laugardaginn 15. nóvember nk. verður Norrænn dagur í Kvikunni. Glæsileg dagskrá verður allan daginn með ljóðasmiðju, málþingi og ljóða- og vísnakvöldi. Dagskráin er þannig:

Kl. 10:00-12:00 Ljóðasmiðja
Aðalsteinn Ásberg Sigurðsson skáld heldur hraðnámskeið í nútíma ljóðagerð.
Farið yfir helstu atriði sem hafa ber í huga og lauflétt verkleg kennsla fyrir byrjendur og lengra komna. Aðgangur ókeypis.
Ljóðasmiðjan er ætluð fólki frá 15 ára aldri, en fjöldi þátttakenda takmarkaður og því nauðsynlegt að skrá sig á netfangið thorsteinng@grindavik.is, í síðasta lagi 13. nóvember kl. 16:00.
Kl. 14:00 Tækifæri í Norrænni samvinnu – Málþing og Norræn deild í Grindavík endurvakin
Kvikan, Grindavíkurbær og Norræna félagið á Íslandi standa að málþingi um mikilvægi Norræns samstarfs, tækifæri og möguleika í norrænu samstarfi. Að málþingi loknu verður deild Norræna félagsins í Grindavík endurvakin.
Stjórnandi: Aðalsteinn Ásberg Sigurðsson.

Dagskrá:
1. Norrænt samstarf
Ragnheiður H. Þórarinsdóttir, formaður Norræna félagsins á Íslandi og deildar-stjóri í mennta- og menningarmálaráðuneytinu, fer yfir helstu þætti í Norrænu samstarfi, tilgang þess og helstu verkefni.
2. Styrkjamöguleikar til menningarmála á Norðurlöndum
Ragnheiður H. Þórarinsdóttir, formaður Norræna félagsins.
3. Starfsemi Norræna félagsins á Íslandi bæði innanlands og á norrænum vettvangi
Ásdís Eva Hannesdóttir og Ragnheiður H. Þórarinsdóttir formaður Norræna félagsins.
4. Deild Norræna félagsins í Grindavík endurvakin
Kristín Pálsdóttir fer yfir sögu deildar Norræna félagsins í Grindavík og í kjölfarið verður starfsemi hennar endurvakin.
Léttar veitingar. Allir velkomnir.
Kl. 17:00 Norrænt Ljóða- og vísnakvöld í tali og tónum
Aðalsteinn Ásberg Sigurðsson rithöfundur og tónlistarmaður flytur lög og ljóð frá Norðurlöndunum
Satu Takkinen frá Piteå, vinabæ Grindavíkur í Svíþjóð, flytur frumsamin ljóð og lög.
Halldór Lárusson bæjarlistamaður og fleira tónlistarfólk tengt Norðurlöndunum.
Aðgangur ókeypis.

Morrinn og múmínálfarnir

Norræna bókasafnavikan
Norræna bókasafnavikan

Café Lingua verður með norrænu yfirbragði fimmtudaginn 13. nóvember. Múmínálfarnir, Morrinn og Tove Jansson verða í brennidepli og mun kaffið fara fram á skandinavísku í Norræna húsinu kl. 17-18.

• Hildur Ýr Ísberg flytur fyrirlestur kynhlutverk í bókum Jansson
• Malin Barkelind les kafla úr bókinni „Pappan och havet“.
• Gestir geta tekið þátt í getrauninni „Mummitroldene og deres nordiske venner“ og boðið verður upp á veitingar í anda Múmínmömmu.
• Í Barnahelli Norræna hússins er hægt að skoða sýningu tileinkaða Tove Jansson og Múmínálfunum.

Umsjón Café Lingua er að þessu sinni í höndum Norræna hússins, Stofnunar Vigdísar Finnbogadóttur auk dönsku, norsku og sænsku við Háskóla Íslands. Enginn aðgangseyrir og allir velkomnir.

Dagskrá um norrænar verðlaunabækur

Jórunn Sigurðardóttir
Jórunn Sigurðardóttir

Velkomin á fyrirlestur Jórunnar Sigurðardóttur um bókmenntaverðlaun Norðurlandaráðs fimmtudaginn 20. nóvember, kl. 12 – 13 í Norræna húsinu.

Bókmenntaverðlaun Norðurlandaráðs hafa nú verið ahent í rúmlega hálfa öld. Þann 29. október síðastliðinn tók Finninn Kjell Westö við verðlaununum fyrir bók sína Hägring 38 eða Tálsýn 38 við hátíðlega athöfn í Bláa salnum í Ráðhúsi Stokkhólms.

Við sama tækifæri voru öll önnur verðlaun Norðurlandaráðs einnig afhent, þeirra á meðal Barna – og unglingabókmenntaverðlaun Norðurlandaráðs öðru sinni og féllu þau nú í hlut Norðmannanna Håkons Övreås og Öyvinds Torseter, höfunda texta og mynda í skáldsögunni Brune eða Brúni.

Jórunn Sigurðardóttir útvarpskona segir frá verðlaunabókunum og ýmsu öðru í tengslum við verðlaunin og val verðlaunabóka í gegnum tíðina en Jórunn hefur fylgst með tilnefningum bóka til Bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs í tæpa tvo áratugi.

Dagskráin er í boði Norræna félagsins og  fellur undir Norræna bókasafnaviku.

Norræna bókasafnavikan

NBV2014Norræna bókasafnavikan fer fram á um tvö þúsund bókasöfnum og stofnunum á öllum Norðurlöndum 10.-16. nóvember.

Ríflega íslensk 120 almennings- og skólabókasöfn eru skráð til þátttöku.

Þema ársins er Tröll á Norður-
löndum
og á dagskrá eru upplestrar, fyrirlestrar og annað sem tengist því.

Kynnið ykkur dagskrá bókasafnavikunnar á ykkar bókasafni!

Myndskreyting ársins er eftir Brian Pilkington.

Dagskrá um drápu drottningar

thorarinn
Þórarinn Eldjárn. Mynd fengin af vefsíðu Forlagsins

Þórarinn Eldjárn rithöfundur flutti Margréti Þórhildi Danadrottningu frumsamda drápu, „Margrétarlof“, við hátíðlega dagskrá í Amalíuborgarhöll í maí síðastliðnum.

Þórarinn mun segja frá formi kvæðisins, hefðinni og að lokum flytja drápuna í dagskrá sem haldin verður í bókasafni Norræna hússins þann 28. október kl. 12 -13.

Dagskráin er í boði Norræna félagsins.

Óbeisluð orka – Grenseløs energi

medium_banner-nordic-house-rc3Fimmtudaginn 23. október kl. 13.00 – 16.00 verður ráðstefna í Norræna húsinu í Reykjavík þar sem fjallað verður um 10 ára menningarsamstarf jaðarsvæðanna Austurlands og Vesterålen í Noregi. Þar verður rakið upphaf og áherslur samstarfsins og rætt hvort það geti nýst sem fyrirmynd fyrir aðra. Einnig verður farið yfir það hvernig önnur jaðarsvæði hafa bæst í hópinn, s.s. Donegal á Írlandi. Leitast verður við að horfa á samstarfið og framtíð þess út frá norrænum áherslum, sjónarhorni listamannsins, stjórnsýslu og ekki hvað síst nútíma menningarpólítík.

Boðið verður upp á fleiri viðburði í tilefni tíu ára afmælis samstarfsins, m.a. tónleika þar sem ungir listamenn sem tekið hafa þátt í samstarfinu flytja frumsamin verk í bland við eldri, sjónlistasýningu, markaðstorg og írskt tónleikakvöld.