Þjóðræknisþing í Winnipeg 100 ára afmæli Þjóðræknisfélags Íslendinga í Vesturheimi – INL of North America Hópferð 15.– 22. maí 2019

Dagana 15. – 19. maí 2019 verður haldið 100. þing Þjóðræknisfélags Íslendinga í Vesturheimi – Icelandic National League of North America (INLofNA). Þingið verður haldið í Winnipeg en þar voru samtökin stofnuð árið 1919.

Stjórn ÞFÍ hefur ákveðið að efna til hópferðar í tengslum við þingið í Winnipeg og hvetur félagsmenn, sem eiga þess kost, til að taka þátt í ferðinni. Samvinna hefur tekist við Kennarasamband Íslands og ráðgjafarfyrirtækið KVAN um undirbúning og framkvæmd. Gert er ráð fyrir að hópur kennara noti tækifærið og fari í skólaheimsóknir auk þess að taka þátt í þinginu. Félagsmenn Norræna félagsins eru velkomnir. Þeir sem fara á vegum ÞFÍ taka þátt í þinginu og einnig er gert ráð fyrir eins dags heimsóknum, annars vegar til Nýja Íslands (Gimli, Árborg, Riverton, Mikley og Selkirk) og hins vegar í byggðirnar í Norður Dakóta (Mountain, Garðar, Thingvalla ofl).

Flogið verður frá Keflavík með Icelandair til Toronto 15. maí og í beinu framhaldi með flugi WestJet til Winnipeg. Flogið verður sömu leið til baka 22. maí og lent í Keflavík árla morguns 23. maí.

Verið er að leggja lokahönd á dagskrá ferðarinnar og gera fjárhagsáætlun og má gera ráð fyrir að nánari upplýsingar um verð ferðarinnar og dagskrá þingsins mun liggja fyrir innan fárra daga. Verður þá send út tilkynning um áætlað verð, skráningu og frekari leiðbeiningar.

Rétt er að taka fram að þátttaka í ferðinni er ekki bundin við félagsmenn en þeir munu samt hafa forgang ef aðsókn fer fram úr framboði á flugsætum og hótelrými.

Með góðri kveðju.

 

Hjálmar W. Hannesson formaður ÞFÍ