Dagur Norðurlanda 23. mars 2017

Norræna félagið og Norræna húsið bjóða til hátíðardagskrár í Norræna húsinu fimmtudaginn 23. mars kl 17:15 – 18:30 í tilefni af degi Norðurlanda.

Bogi Ágústsson, formaður Norræna félagsins býður gesti velkomna.

Björg Eva Erlendsdóttir, formaður Reykjavíkurdeildar Norræna félagsins, ræðir um samstarf Íslands og Færeyja og segir frá fyrirhuguðu höfuðborgarmóti sem haldið verður í Þórshöfn í Færeyjum seinna á árinu.

Linda Vilhjálmsdóttir les uppúr ljóðabók sinni “Frelsi” sem er tilnefnd til bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs. Um bókina segir á vef Norrænu ráðherranefndarinnar: Frelsi er óvenju áleitin og áhrifamikil ljóðabók með nafnlausu inngangsljóði og þremur tölusettum ljóðabálkum sem allir snúast um leiðarminnið frelsi, afbökun okkar á hugtakinu og upplifun okkar af því.

Tónlistaratriði: Ingi Gunnar Jóhannsson flytur lagið “Ens i Nord” sem nokkrir Vísnavinir á Norðurlöndum ætla að flytja í hverju landi fyrir sig þennan dag.

Inga Dóra Markussen, framkvæmdastjóri Vestnorræna ráðsins, segir frá stjórnmálum í Grænlandi og stöðu Grænlands í norrænu og vestnorrænu samstarfi.

Ásdís Eva Hannesdóttir, framkvæmdarstjóri Norræna félagsins, segir frá Eystrarsaltssamstarfi frjálsra félagasamtaka og alþjóðlegri ráðstefnu sem haldin verður í Reykjajanesbæ í maí. 

I anledning af Nordens dag inviterer Foreningen Norden og Nordens Hus til program i Nordens Hus torsdagen den 23. marts kl 17:15 – 18:30.

 Allir velkomnir