Færeyjar út úr þokunni – frá fornsögum til okkar tíma

Þorgrímur Gestsson rithöfundur verður gestur Norræna félagsins í Bókasafni Árborgar á Selfossi næstkomandi fimmtudag 30. nóvember klukkan 17. Þorgrímur hefur lagt sig fram um að draga fram sögu lands og þjóða. Í þetta sinn mun hann kynna Færeyjar en Færeyjar út úr þokunni er þriðja bókin sem byggð er á ferðum hans um slóðir fornsagna í öðrum löndum. Fyrri bækur um þetta efni eru Ferð um fornar sögur – Noregsferð í fótspor Snorra Sturlusonar (2003) og Í kjölfar jarla og konunga – ferð um fornsagnaslóðír Orkneyja og Hjaltlands (2014).

Þorgrímur ferðaðist um Færeyjar með Færeyinga sögu í farteskinu og kannaði tengsl þessara 18 Atlantshafseyja við söguna að fornu og nýju, og leitast við að máta söguna við söguslóðirnar. „Þannig var hugmyndin að kynna söguna fyrir nútímalesendum og endurskapa hana í því umhverfi þar sem hún gerðist fyrir þúsund árum eða svo – eða á að hafa gerst,“ segir Þorgrímur.

Í Færeyinga sögu, sem talið er að hafi verið skrifuð á Íslandi um 1200, segir frá valdabaráttu og örlögum færeyskra höfðingja, sem þar tókust á, Þrándi í Götu og Sigmundi Brestissyni í Skúfey, og því hvernig Noregskonungur náði að lokum tangarhaldi á eyjunum og fékk þær kristnaðar. Eftir það hurfu Færeyjar út í þoku tímans og fátt er um heimildir um sögu lands og þjóðar lengi vel.

„En ýmsar heimildir leynast þó hér og hvar um það sem gerðist þessar þokulögðu aldir,“ segir Þorgrímur Gestson sem heldur áfram ferð um sögu Noregs, sögu Norðurlanda. Þorgrímur kannar upptök helstu menningarstrauma nútímans og segir frá endurreisn færeyskrar menningar við erfiðar aðstæður undir valdi Danakonungs, hvernig færeyskir menntamenn endurskópu færeyskt ritmál á 19. öld og hófu blaða- og bókaútgáfu. Lýst er hvernig Færeyingar lögðu grundvöll að sjálfstæðum sjávarútvegi og pólitísku flokkakerfi, óháð Dönum, og sagt frá deilumálinu endalausa: Áframhaldandi sambandi við Dani eða algerum sambandsslitum.

Þorgrímur Gestsson tók kennarapróf árið 1967 en sneri sér að blaðamennsku eftir stuttan kennaraferil og starfaði við dagblöð, tímarit og Ríkisútvarpið í þrjá áratugi. Síðustu tvo áratugina hefur hann stundað sjálfstæð ritstörf og sent frá sér 15 heimildabækur af ýmsum toga.

Það er upplagt tækifæri að eiga góða stund í bókasafninu á Selfossi og kynnast Færeyjum, landi og þjóð.

Þorlákur Helgi Helgason, formaður Norræna félagsins á Selfossi og nágrenni.