SÍÐDEGISRABB ÞORGRÍMS GESTSSONAR UM FÆREYJAR

Norræna félagið býður til síðdegisrabbs Þorgríms Gestssonar um Færeyjar, miðvikudaginn 3. maí kl. 17:15 í húsnæði Norræna félagsins að Óðinsgötu 7, 101 Reykjavík.

Allir velkomnir og aðgangur ókeypis.

Þorgrímur Gestsson, blaðamaður og rithöfundur talar um nýja ferðabók sína um Færeyjar sem væntanleg er í sumar og hún sett í samhengi við fyrri ferðabækur hans um Noreg og Orkneyjar og Hjaltland.

Af ferðum um fornar sagnir

Þorgrímur Gestsson, blaðamaður og rithöfundur talar um ferðabækur sínar þrjár um fornsagnaslóðir, sem út hafa komið á síðustu árum: Ferð um fornar sögur – í fótspor Snorra Sturlusonar, kom út á Íslandi árið 2003 og í Noregi 2007 og Í Kjölfar jarla og konunga – ferð um fornsagnaslóðir Orkneyja og Hjaltlands kom út árið 2014. Þriðja bókin, Færeyjar út úr þokunni – frá fornsagnaslóðum til okkar tíma er farin í prentun í Slóvakíu en kemur væntanlega formlega út 14. júní, þegar höfundurinn fagnar sjötugsafmæli sínu.

Þorgrímur vann við blaða- og fréttamennsku í nærri þrjá áratugi en síðustu tvo áratugi hefur hann fengist við að skrifa heimildabækur, sem fjalla um ýmislegt sagnfræðilegt efni. Í fyrrnefndum þremur bókum sameinar hann sagnfræðina og blaðamennsku, sem hann telur að hafi verið ævistarf hans þrátt fyrir ýmsa refilstigu á farinni ævibraut, og leitast við að tengja saman söguþræði fornra sagna og söguslóðirnar, og horfa yfir sviðið af sjónarhóli nútímamannsins.

Þriðja bókin verður að því leyti frábrugðin hinum að þar er haldið áfram sögunni þar sem Færeyinga sögu sleppir og hún rakin allt til okkar tíma, farið á hundavaði gegnum Noregssöguna, Norðurlandasöguna, söguna um það hvernig Færeyjar og Ísland hröktust frá Noregskonungum til Danakonunga, fjallað um frelsisbaráttu Færeyinga, endurreisn færeyskunnar og hvernig og hvers vegna færeysk stjórnmál og nútímamenning í Færeyjum urðu til. Og loks dálítið um menningar- og stjórnmálaástand í nútímanum.

Þarna kom höfundi fjölmargt á óvart og vafalaust kemur margt í þessari bók mörgum lesendum í opna skjöldu – í það mesta þeim sem ekki eru þeim mun betur að sér í sögu Norðurlanda.