Sólrisuhátíð Norræna félagsins í Reykjavík

Frá örófi alda hafa menn fagnað sólrisu og nýjum hring sólar um jörðu. Hin kristnu jól og áramót tóku við af heiðnum siðum þar sem gangur sólar réði inntaki hátíðahalda þegar daginn fór að lengja. Hvernig fagnaði Auður djúpúðga og hennar fólk sólrisunni? Hvað eimir eftir af keltneskum menningararfi í íslenskum siðum? Leitað verður svara við því á Sólrisuhátíð Norræna félagsins í Reykjavík fimmtudagskvöldið 18. janúar kl. 20.00, að Óðinsgötu 7.

Vilborg Davíðsdóttir, rithöfundur og þjóðfræðingur, segir frá rannsóknum sínum á lífsháttum keltneskra landnámsmanna og hvernig þær hafa nýst henni við bókaskrif um ævi og örlög Auðar djúpúðgu.

Þorvaldur Friðriksson, fréttamaður og fornleifafræðingur, segir frá rannsóknum sínum á landnámi Kelta, orðsifjum í gelísku og íslensku og keltneskum menningaráhrifum hér á landi.

Ana Stanecivic, Norðurlandafræðingur og nýr stjórnarmaður í Norræna félaginu, verður með skosk/íslenskan ljóðagjörning til að fagna sólrisunni og boðið verður upp á mat og mjöð í anda keltneskra landsnámsmanna.

Allir eru velkomnir á Sólrisuhátíðina í húsakynnum Norræna félagsins.