Stóraukum kennslu í dönsku, norsku og sænsku.

Aðalfundur Norræna félagsins í Reykjavík hvetur menntamálaráðherra, sveitarstjórnir og skólastjórnendur til að hefja nú þegar samráð og undirbúning að stórsókn í kennslu dönsku, norsku og sænsku í grunnskólum landsins. Samhvæmt gildandi aðalnámskrá er gert ráð fyrir því að enska sé fyrsta mál, en danska, norska og sænska annað tungumál. Engu að síður gerir námskráin ráð fyrir þvi að við lok grunnskóla, eigi nemendur að hafa náð sama hæfnistigi í ensku og einu af Norðurlandamálunum þremur. Öllum ætti að vera ljóst að því fer fjarri að markmiðum aðalnámskrár grunnskóla, um sambærilega hæfni nemenda í ensku og einu Norðurlandamáli, hafi verið náð á liðnum árum og augljóst að frá því að enskan var gerð að fyrsta erlenda tungumálinu, í stað Norðurlandamáls, hefur stöðugt sigið á ógæfuhliðina í námi og kennslu Norðurlandamálanna og verulega dregið úr hæfni þjóðarinnar í dönsku, norsku og sænsku.

Þessari þróun þarf að snúa við, enda er hæfni í dönsku, norsku og sænsku mikilvægur grunnur að nánu samstarfi Norðurlandanna og veitir okkur Íslendingum greiðan aðgang að samfélögum allra hinna Norðurlandanna; sameiginlegum vinnumarkaði, háskólum á heimsmælikvarða, tíunda stærsta hagkerfi heimsins og menningar-, félags- og efnahagssamskiptum við framsæknustu þjóðir heims. Að mati Norræna félagsins í Reykjavík, þarf nú þegar að stórefla skyldunám í dönsku, norsku og sænsku í grunnskólum landsins og tryggja að kennsla í einu af þessum þremur tungumálum standi öllum nemendum til boða, eftir vali hvers og eins.Samhliða er mikilvægt að tryggja enn aukið framboð á kennslu- og afþeyingarefni á ofangreindum tungumálum, en þar hefur RÚV gengi fram með góðu fordæmi á liðnum misserum, með sýningu fjölda áhugaverðra þátta og skemmtiefnis frá hinum Norðurlöndunum. Norræn samvinna hefur fært Norðurlandabúum gríðarlegan ávinning á liðnum áratugum og ekkert sem bendir til annars, en að svo geti áfram orðið ef rétt er á málum haldið.

Ein mikilvæg forsenda þess er menningarlegur skilningur og tungumálakunnátta. Þann grunn verðum við að styrkja.

Samþykkt á aðalfundi Norræna félagsins í Reykjavík, 12. mars 2020.