Norræna bókmenntavikan

Mánudaginn 12. nóvember 2018 var Norræna bókmenntavikan, áður Norræna bókasafnavikan, sett í 22. sinn. Vikan verður sneisafull af alls kyns viðburðum – svo sem upplestrum, umræðum, sýningum og öðrum menningarviðburðum – sem eiga sér stað samtímis á þúsundum bókasafna, skólum og öðrum samkomustöðum víðsvegar á Norðurlöndum og nærliggjandi löndum. Meginmarkmið Norrænu bókmenntavikunnar er að lýsa upp svartasta skammdegið með lestri. Í ár er þema vikunnar: Hetjur á Norðurlöndum. Bækur ársins eru: Handbók fyrir ofurhetjur eftir Elias og Agnes Våhlund, Þau sem ekki eru til eftir Simon Stranger og Íslenskir kóngar eftir Einar Má Guðmundsson.

Þátttaka í Norrænu bókmenntavikunni er öllum að kostnaðarlausu og krefst eingöngu skráningar og áhuga þátttakenda. Hægt er að skrá sig á heimasíðunni endurgjaldslaust. Undir hlekknum „Bókmenntir og þema ársins“ má svo lesa meira um textana og þau viðfangsefni sem urðu fyrir valinu árið 2018.

Skráðu skólann þinn, bókasafnið eða stofnunina og taktu þátt einum stærsta upplestrarviðburði Norðurlandanna! Þannig getum við í sameiningu skapað einstakan viðburð – þar sem norrænar bókmenntir lifna við og öðlast líf í skammdegisrökkrinu.

Norræn bókmenntavika er verkefni á vegum Sambands Norrænu félaganna sem leitast við að efla lestrargleði og breiða út norrænar bókmenntir á Norðurlöndunum og nágrannalöndum.