Line Barfod í Norræna húsinu

Line Barfod, lögfræðingur og fyrrverandi þingmaður Enhedslisten á Danska þjóðþinginu, heldur erindi um mansal – þrælahald nútímans, í Norræna húsinu, föstudaginn 26. febrúar, kl. 17.00.

Viðburðurinn er haldinn á vegum Norræna félagsins, Norræna hússins og Vinstri grænna og mun fara fram á íslensku og dönsku. Eyrún Eyþórsdóttir, lögreglufulltrúi og mannfræðingur verður kynnir fundarins. Opnað verður fyrir spurningar að loknu erindi Line og mega þær vera á íslensku, ensku eða dönsku.

„Börn eru seld til að nota líffæri þeirra, börn og fullorðnir eru seld til að betla og stela, fólk er selt í nauðungarvinnu í fiskiðnaði, landbúnaði og byggingarvinnu. Það er algengt á Norðurlöndunum,“ sagði Line Barfod í viðtali við Boga Ágústsson á RúV, fyrir fjórum árum.

Line hefur unnið mikið starf í baráttunni gegn mansali og þrælahaldi sem þingmaður og fulltrúi Norðurlandaráðs m. a.  í samstarfi ríkjanna sem liggja að Eystrasalti og lagt fram tillögur til að bæta úr.

Þetta er í annað skipti sem Line heldur erindi um þrælahald nútímans fyrir Íslendinga.  Síðast talaði  hún á vegum Norræna félagsins í Reykjavík, fyrir fjórum árum og vakti umfjöllun hennar mikla athygli. Þá sagði Line að munurinn á þrælahaldi í gamla daga og þrælahaldi  nú, væri meðal annars sá að áður var farið betur með þrælana til að þeir entust sem lengst, nú væru þeir frekar einnota, enda framboðið mikið.

Line Barfod verður hér á landi á samráðsfundi Vinstri grænna  og leiðtoga evrópskra vinstri flokka um flóttamannavandann yfir helgina.  

Björg Eva Erlendsdóttir, veitir nánari upplýsingar í síma 896 1222.