Um Norræna félagið

Norræna félagið er gamalgróið félag sem starfar óháð flokkspólitík. Félög um norræna samvinnu voru fyrst stofnuð árið 1919 í Danmörku, Noregi og Svíðþjóð, og árið 1922 á Íslandi.

Hlutverk Norræna félagsins er að efla norrænt samstarf, auka hreyfanleika á Norðurlöndunum og auka skilning á menningu, tungumálum og samfélögum Norðurlandanna. Þetta gerum við með því að skapa tengsl milli einstaklinga, fjölskyldna, menntastofnanna, bæjarfélaga og fyrirtækja á Norðurlöndunum. Hið fasta leiðarljós Norræna félagsins á Íslandi er að efla samstarf og vináttutengsl Íslendinga og annarra Norðurlandabúa.

Norræna félagið starfar í 16 félagsdeildum um allt land. Starf félagsdeildanna er mjög fjölbreytt, en víða er kjölfesta þeirra norrænt vinabæjasamstarf, ungmennaskipti, viðburðahald og samstarf við viðkomandi sveitarfélag um norræn verkefni. Starf félagsdeilda er félaginu afar mikilvægt þar sem félagsmenn eru víða um land.

Skrifstofa Norræna félagsins á Íslandi veitir félagsmönnum og öllum almenningi á Íslandi góða og faglega þjónustu um Norðurlönd og norrænt samstarf. Starfsfólk skrifstofunnar og félagskjörnir fulltrúar sinna fjölbreyttum verkefnum sem öll hafa að markmiði að styðja við samstarf Norðurlanda á sem flestum sviðum.

Norræna félagið á Íslandi starfar náið með systurfélögum annarstaðar á Norðurlöndunum. Samstarfsvettvangur félaganna nefnist Samband Norrænu félaganna / Foreningerne Nordens Forbund og er skrifstofa þess staðsett í Kaupmannahöfn í Danmörku.


Meðal verkefna Norræna félagsins eru:

  • Snorraverkefnin – fjölbreytt samskipti við Vestur-Íslendinga.

  • Norden i skolen - fræðsluefni fyrir skóla á Norðurlöndunum.

  • Tungumálanámskeið - s.s. íslenska fyrir Norðurlandabúa, sænska fyrir Íslendinga.

  • Félagsdeildir - fjölbreytt starfsemi fyrir félagsmenn um allt land.

  • Fundur fólksins - lýðræðishátið almennings, stjórnmálamanna og frjálsra félagasamtaka.

  • Nordjobb – árstíðabundin störf og ævintýri á Norðurlöndum.

  • Info Norden – upplýsingaþjónusta Norrænu ráðherranefndarinnar.

  • Norræn bókmenntavika – stærsti menningarviðburður á Norðurlöndunum.

  • Nordic Civ - samstarfsnet Norrænu ráðherranefndarinnar.

  • Lýðháskólastyrkur - styrkur til íslenskra ungmenna, fjármagnað af Nordplus.


Taktu þátt!

Hefur þú áhuga á norrænu samstarfi? Ert þú með hugmynd að verkefni? Hafðu samband við okkur á norden@norden.is eða skráðu þig í félagið.