Sveinlaug fór til Danmerkur árið 2002
Sveinlaug Sigurðardóttir var tvítug þegar hún fór til Kaupmannahafnar sem Nordjobbari árið 2002. Hún skellti sér af stað með vinkonu sinni, beint eftir stúdentspróf úr menntaskóla. Hún segir þetta hafa verið góða upplifun sem hafi styrkt tengsl hennar við Norðurlöndin til muna.
“Þannig það að fara í gegnum Nordjobb efldi algjörlega þann part í sjálfsmyndinni minni, að vera hluti af Norðurlöndunum. Það eru klárlega áhrif sem skiluðu sér inn í framtíðina, af því svo náttúrulega fannst mér ég tilheyra betur Norðurlöndunum og eiga meira erindi inn í eitthvað Norðurlanda samstarf af því að mér fannst ég eiga einhverja hlutdeild í Norðurlöndunum.”
Í hverju fólst starfið og hver voru verkefnin?
Við fórum út saman ég og besta vinkona mín. Við vorum að þrífa á Herlev Hospital og bjuggum í Tingbjerg. Við sóttum um í gegnum Nordjobb og Nordjobb reddaði okkur vinnu en gat ekki reddað okkur húsnæði á þessum tíma, það var eitthvað krefjandi. Við gátum fengið vinnuna ef við myndum finna húsnæði sjálfar. Frændi minn sem bjó í Danmörku á þessum tíma og var í námi þar og bjó á háskólagörðum, hann langaði að fara til Íslands yfir sumarið og við fengum að vera í herberginu hans á meðan. Við vorum þá bara tvær í einstaklingsherberginu hans yfir sumarið.
Ég man mjög vel eftir vinnutímanum hjá okkur. Margir fengu vinnu á t.d. McDonalds eða Burger King og voru stundum á næturvöktum og stundum á dagvöktum en við vorum bara á virkum dögum. Ég man að ég þurfti að stilla klukkuna mína 04:45 til þess að ná strætó rúmlega fimm af því að ég þurfti að vera mætt í vinnuna kl. 06:00 á morgnana. Það var náttúrlega alveg nýtt fyrir manni á þessum tíma, ég þekkti engan sem að mætti í vinnuna kl. 06:00 á Íslandi. Það var svona fyrsta Norðurlanda-breytingin. Ég var bara, „hver mætir í vinnu kl. 06:00?“. En fólk gerði það bara og ég tók alltaf strætó og vinkona mín fór á hjóli, hún var svo mikill hjólari en ég hafði aldrei hjólað mikið og treysti mér því ekki til að hjóla í vinnuna.
Við byrjum að vinna kl. 06:00 og ég man alltaf að við vorum búnar að vinna á skrítnum tíma, 13:52 eða eitthvað svona, það var ekki slétt tala og þá var mér sagt að Danir væru búnir að stytta vinnuvikuna. Það væri ekki 40 tíma vinnuvika, heldur aðeins minna, svona það sem við þekkjum vel á Íslandi í dag.
Við vorum að þrífa spítalann, allar hæðirnar voru eins, sama hvar þú varst, þá var þetta sama uppsetning. Maður átti bara að þrífa einn helming, „já í dag þarftu að fara á hæð númer þetta og þrífa þennan part“ og þá var maður bara að moppa og þurrka af, skúra gólfin og þrífa skrifstofu rými. Maður fór líka inn á sjúkrastofur þar sem voru sjúklingar. Við vorum að þrífa í kringum rúmin, þannig að maður var svona stundum að spjalla við þau aðeins líka. Ég man að það var mikið af gömlu fólki á deildinni sem ég var að þrífa svolítið lengi á og ég lærði dálítið í dönsku á að vera þar, af því þau vissu að ég var útlendingur. Þau töluðu bara hægt og rólega og ég var stundum að spjalla við þau á meðan ég var að þrífa. Ég man að mér fannst það ótrúlega lærdómsríkt.
Hvernig var Nordjobb frítímaprógramið í Danmörku, tókstu þátt í því?
Við þurftum náttúrulega að fara snemma að sofa til að vera ekki eins og uppvakningar í vinnunni, sem var stundum pínu erfitt, af því að annað ung fólk í Nordjobb var að hittast á kvöldin og fram á nótt. Einhvern veginn þróaðist þetta þannig að við vorum ekkert svakalega mikið inn í öllu þessu félagslega af því að það var svo mikil nætur- og djammstemning og við vorum báðar að vakna snemma og fara snemma að sofa. Við gerðum hins vegar rosalega mikið á daginn. Við vorum búnar í vinnunni klukkan tvö og þá var bara geggjað gott veður oft, sól og allur dagurinn eftir. Þá vorum við bara að labba um borgina, kynnast borginni, leyfa okkur að villast, lenda einhvers staðar, fara niður á strönd, á Íslandsbryggju og vera í sólbaði, dóla okkur á kaffihúsum. Þannig við kynntumst borginni rosa mikið. Við fórum lika niður í Utterslev Mose, náttúrusvæði, þar lágum við í sólinni að lesa, spila og spjalla. Við vorum voða mikið við tvær að gera okkar einhvern veginn. Oft vorum við komnar í ró tíu á kvöldin, nema náttúrulega um helgar og svona. Þá hittum við stundum kunningja og vini sem ýmist bjuggu þarna á sama tíma eða komu í heimsókn.
Svo var líka alveg félagslíf tengt Nordjobbinu, ég fór með vinkonu þannig við vorum eiginlega svona teymi, tvær saman. Við kynntumst alveg einhverju fólki en af því að við höfðum hvor aðra þá kannski bar maður sig minna eftir því. Þeir sem komu einir hafa kannski eignast vini fyrir lífstíð eða kynnst fólki frá öðrum löndum sem það er kannski ennþá í sambandi við. Frítímaprógrammið var t.d. með einhvers konar úti hópefli, í einhverjum almenningsgarði, klassísk dönsk stemmning á góðviðris degi, fara í leiki og fá sér svo að borða og fá sér bjór á eftir. Það voru þarna íslenskar stelpur sem við þekktum sem fóru á sama tíma og þær voru mun duglegri en við að mæta í alls konar. Ef maður hefði verið einn þá hefði það náttúrulega verið gríðarlega mikilvægt að hafa einhverja svona viðburði til að tengja mann við aðra. Kannski voru einhver svona borðspilakvöld og kannski bjórkvöld sem mig rámar í að hafa farið á líka.
Hvað var það besta við Nordjobbdvölina þína?
Hefði örugglega svarað þessu öðruvísi fyrir 20 árum. En þegar ég hugsa til baka núna, þá held ég að besta við þetta hafi verið bara að prófa að fara út fyrir þægindarammann sinn og vera sjálfstæður án foreldra sinna í fyrsta skipti, eins og fyrir mig sem bjó heima hjá foreldrum mínum, tvítug, að vera lengur en bara í einhverja daga í burtu. Að þurfa að efla sjálfstæðið og þessa ábyrgðartilfinningu, að þurfa bara að hugsa um allt sjálf. Ekki það að ég hugsaði alveg sjálf um margt heima hjá foreldrum mínum, ég þvoði og gerði mat og svona en það er einhvern veginn þetta að vera bara á eigin vegum. Við þurftum að sjá um allt sjálfar. Þetta var góð æfing í að taka ábyrgð og sjálfstæði og svo var náttúrulega ótrúlega gaman að vera bara með vinkonu sinni í annarri borg, í góðu veðri og kynnast nýjum stöðum og aðeins annarri menningu þó að hún hafi ekkert verið mjög ólík, en samt víkkaði þetta sjóndeildarhringinn manns.
Kemur einhver minnig upp í hugann sem þú vilt segja okkur frá?
Þetta með að þurfa að vakna svona snemma á morgnana, það var alveg svolítið svona, „vó, ég þarf bara að gera þetta og ég þarf bara að standa mig. Þessi vinna er ástæðan fyrir því að ég get verið hérna og mig vantar þennan pening til þess að geta keypt í matinn og bara verið til og gert eitthvað skemmtilegt“. Það var svolítið svona bara „okei ég þarf bara að gera þetta og standa mig!“.
Hvernig hefur Nordjobb upplifunin haft áhrif á þig?
Þetta hafði ekki áhrif á starfsval af því mér fannst þetta ekkert æðislega skemmtileg vinna, hún var bara svona einhver vinna til að fá laun. Það gaf mér samt ákveðna innsýn að vinna á spítala, ég hafði aldrei unnið á spítala áður, ég hafði unnið á pizzastað með menntaskóla og verið í garðvinnu á sumrin. Það var hollt að vera inni í öðruvísi starfsumhverfi og vera innan um alla sjúklingana. Það var svolítið svona nýtt fyrir manni og ég held að kannski hafi það eflt einhverja mögulega félags- og tilfinningafærni hjá manni. Þú veist, ég var að þrífa í kringum veikt fólk og það var svona ákveðin tillitsemi og virðing sem maður þarf að sýna fólki í svoleiðis aðstæðum. Fólk er svo viðkvæmt og berskjaldað þegar það er á spítala, það liggur í rúmi og sérstaklega gamalt fólk sem var ekkert að fara fram eða gera eitthvað, þá þarf bara að vera einhver þroski í mannlegum samskiptum, sem ég græddi þar.
Hefur Nordjobb-reynslan fengið þig til þess að upplifa þig á einhvern hátt sem hluta af Norðurlöndunum?
Þarna úti var klárlega eitthvað sem kveikti á einhverju svoleiðis hjá mér. Að vera þarna úti eitt sumar, þá náttúrulega æfði ég mig í að nota dönskuna, sem ég hafði lært í skólanum áður. Margir Íslendingar læra dönsku en geta svo alls ekkert talað dönsku eða skilið dönsku, nema kannski bara lítið, það eru kannski einhverjir sem geta það en margir sem einhvern veginn nota hana ekkert. En þetta kveikti hjá mér einhvern áhuga á Norðurlöndunum sem einingu og það er held ég eitthvað sem situr hvað mest eftir. Ég er leikskólakennari í dag og hef unnið mikið fyrir Félag leikskólakennara og í mörg ár þá var ég fulltrúi fyrir félagið í Norrænu kennara samtökunum til dæmis. Þá var ég bara, „hey ég er til í að taka það“, af því að ég átti þessa tengingu við Danmörku sem varð til í Nordjobb. Mér þótti vænt um Norðurlöndin sem einhvers konar heild og ég upplifði mig sem einhvern hluta af svona Norðurlanda-heild. Þannig það að fara í gegnum Nordjobb efldi algjörlega þann part í sjálfsmyndinni minni, að vera hluti af Norðurlöndunum. Það eru klárlega áhrif sem skiluðu sér inn í framtíðina, af því svo náttúrulega fannst mér ég tilheyra betur Norðurlöndunum og eiga meira erindi inn í eitthvað Norðurlanda samstarf af því að mér fannst ég eiga einhverja hlutdeild í Norðurlöndunum. Og svo hafði ég notað tungumálið smá og ég var því óhræddari við að tala bara Norðurlandamál, dönsku, sænsku, nota einhverja blandinavísku. Ég finn það í umræðum um alþjóðamál og ég finn það þegar ég tala við unglingana okkar og svoleiðis. Ég finn að ég er með miklu dýpri tengingu við Norðurlöndin, svona að við séum einhver eining með Norðurlöndunum, heldur en til dæmis margir unglingar í dag, af því þau tengja sig ekkert svo mikið við Norðurlöndin. Þeim finnst mörgum þau miklu meira bandarísk, vegna t.d. TikTok og allra samfélagsmiðlanna. Við fáum miklu meira af dóti frá Ameríku heldur en frá Norðurlöndunum í rauninni, þó að íslenska menningin sé svo blönduð af báðu. Á netinu hefur þetta ameríska einhvern veginn alveg tekið yfir og maður þarf alveg virklega að leita eftir því að eitthvað frá Norðurlöndum poppi upp á Tiktokinu manns, en allt frá Ameríku poppar stanslaust upp. Ég held að ég hafi grætt einhvers konar tengingu við Norðurlöndin og þess vegna finnst mér svo ánægjulegt að það eigi að rífa þetta upp aftur af því ég held að kynslóðin sem er núna á þessum aldri myndi græða helling á því að fá að upplifa þessa tengingu við Norðurlönd af því að við eigum svo mikið sameiginlegt með þeim og miklu meira heldur en Ameríku. Þar held ég að þetta hafi alveg sáð fræjum sem skipta máli fyrir mig. Mér þykir mjög vænt um Norðurlöndin, ég hef oft hugsað af hverju. Ég elska að fara til Danmerkur, mér finnst eins og ég sé bara komin heim, þess tilfinning, og margir Íslendingar tala um þetta, en náttúrulega ekki ef þú hefur aldrei farið þangað eða ert ekki með neina tenginu, þetta dýpkaði þá tengingu klárlega.
Hvað myndiru vilja segja við einhvern sem er að íhuga það að sækja um?
Ég myndi segja bara „go for it“, bara um að gera að skella sér. Ég held að þetta sé frábært tækifæri til þess að fara út fyrir þægindarammann. Meira að segja fyrir þá sem eru svona kannski pínu hræddir við að fara of langt eða í eitthvað of framandi, þá er þetta einhvern veginn svo líkt Íslandi að þetta er ekki eitthvað brjálað menningarsjokk. Ef einhverjum fyndist það óþægilegt að fara lengra í burtu, þá er þetta bara svona smá öðruvísi en ekki of. Það er mikilvægt að rækta þessi tengsl við Norðurlöndin, svo líka fara sumir kannski í háskóla á Norðurlöndunum, Íslendingar hafa náttúrulega mikið gert það. Það getur verið gagnlegt að hafa verið í einhverju af Norðurlöndunum upp á að kunna síðan málið ef maður skyldi síðan vilja læra þar. Nordjobb er bara frábært tækifæri, það er gaman að kynnast hinum löndunum.
Viðtalið fór fram í mars 2025, á Óðinstorgi í Reykjavík
Fleiri frásagnir af íslenskum Nordjobburum eru væntanlegar á næstu mánuðum
Hér eru þær vinkonurnar staddar á Herlev Hospital, þar sem þær störfuðu. Sveinlaug er til hægri og vinkona hennar Soffía Hauksdóttir stendur vinsta megin.