Jóhann Gísli dvaldi í Noregi árið 2024
Jóhann Gísli Jónsson er 24 ára, hann ólst upp í Neskaupsstað, æfði skíði í fjölda ára og varði sumrunum í sveit. Hann hefur lokið BSc námi í náttúru- og umhverfisfræði frá Landbúnaðar-háskóla Íslands. Eftir útskrift tók hann skyndiákvörðun og skellti sér af stað í fjögurra mánaða bakpokaferðalag um Evrópu. Eftir það ákvað hann síðan að sækja um hjá Nordjobb.
Jóhann nýtti frítímann vel og naut náttúrunnar í kring.
Hér er hann að ganga til Trollatunga í frítímanum.
Hvar heyrðiru af Nordjobb?
Ég held ég hafi nú bara alltaf vitað af því, örugglega einhver kynning í menntaskóla eða séð það á Facebook, en þekki samt engan sem hefur farið af stað. Ég var nýbúinn í fjögurra mánaða Interrail ferð um Evrópu og langaði til að ferðast meira og afla mér peninga. Ég ákvað því að sækja um starf í gegnum Nordjobb og vinna á Norðurlöndunum, sem ég svo gerði frá apríl til október 2024.
Hvert fórstu og hvernig var vinnurstaðurinn og verkefni?
Ég sótti um í Noregi, Danmörku og Svíþjóð, bara dritaði inn umsóknum, mikið til á veitingastaði og því um líkt og síðan sá ég auglýsinguna frá Flåm Zipline í Noregi sem hljómaði ótrúlega spennandi. Þetta var eitthvað allt annað en það sem ég hafði áður unnið við, þetta var auglýst sem hámark sex mánaða starf en svo var líka hægt að vera yfir hátímabilið í tvo mánuði. Ég var boðaður í viðtal bara strax eftir að ég sótti um, þetta gekk allt mjög hratt fyrir sig og ég fékk starfið stuttu eftir.
Það var um 45 mínútna akstur upp í fjöllin í vinnuna og útsýnið á leiðinni var stórkostlegt. Þetta var sem sagt zipline, tvær línur þar sem tveir fara niður á sama tíma, þetta byrjar í um 800 metra hæð og endar í 500 metrum, þannig þetta er alveg 300 metra lækkun. Línurnar eru 1,4 km langar, þetta er því lengsta zipline á Norðurlöndunum.
Það voru þrír til fjórir einstaklingar á efri stöðinni að innrita fólk og senda það niður í zipline og fimm til sex manns niðri að taka á móti fólki, leigja út hjól og selja kaffi. Mitt meginstarf fólst í því að taka á móti fólki niðri, taka búnaðinn af þeim og senda hann upp með lyftunni. Ég var einn af tveimur teymisstjórum og bar ábyrgð á fylgjast með veðurskilyrðum og ákvarðanatöku um þyngdartakmarkanir fyrir trissurnar sem renna eftir vírnum. Ég gerði einnig við hjól og leigði þau út.
Það voru á bilinu 100-350 viðskiptavinir flesta daga, frá öllum heimshornum og maður efldist við að eiga í samskiptum við fólkið og leiðbeina og aðstoða fjölbreyttan hóp viðskiptavina.
Vinnutíminn var frá hálf tíu til hálf fimm en yfir hátímabilið, frá lok júní til lok ágúst var það frá hálf tíu til sjö, við unnum þrjá daga og fengum þrjá daga frí. Launin eru svipuð í Noregi og á Íslandi. Ég var á fínum launum, ég var með aðeins meiri ábyrgð og þetta er svona árstíðabundin vinna, þannig ég var bara sáttur.
Í fríinu var ég mikið að ferðast um nágrennið, fara í gönguferðir og útilegur eða gera eitthvað saman með vinnufélögunum. Það voru margir sumarstarfsmenn að vinna í Flåm bæði almennt og Nordjobbara líka. Reglulega voru haldnir ýmsir skemmtilegir viðburðir sem við vorum dugleg að sækja.
Útsýnið hjá Jóhanni Gísla á leið í vinnu.
Hvar bjóstu?
Við bjuggum 10-12 saman í stóru húsi í Aurland, en einnig var í boði annað minna hús. Við vorum mörg yfir hásumarið en um vorið og haustið vorum við færri. Þetta var bara svolítið eins og að vera á heimavist, við urðum mjög náin.
Hvaða áskorarnir tókstu á við?
Það hjálpaði til að vera nýlega búinn með reisu, en það gerði mann sjálfstæðari að búa í öðru landi og takast á við áskoranir sem fylgja því. Ég efldist við að vinna í stóru teymi. Það þurfti allt að ganga vel smurt, fólk var að fara niður ziplinið allan daginn stanslaust, samskipti og liðsvinna þurftu því að vera góð.
Hvað lærðiru um sjálfan þig í þessu umhverfi?
Maður getur gert það sem maður ætlar sér, ef þú vilt prófa að vinna í útlöndum og takast á við nýjar áskoranir, þá er það bara að láta vaða.
Áttu einhverjar skemmtilegar minningar frá dvölinni?
Það sem stóð uppúr og var eftirminnilegt var hvað við starfsfólkið vorum dugleg að gera ýmislegt saman í frítímanum, m.a. með því að grilla saman, spila Uno og Kubb, fara í strandblak, fjallgöngur og njóta í saunu. Við grilluðum oft eftir vinnu og skemmtum okkur saman. Við fengum einu sinni frían bátstúr um firðina hjá FjordSafari, sem var ótrúlega gaman!
Sjálf zipline upplifunin var auðvitað mögnuð - að fljúga niður á 100 km hraða, en eftir 25 skipti var maður orðinn vel sjóaður. Mér fannst líka náttúran og fjöllin í vinnunni alveg stórmögnuð.
Hvaða þýðingu helduru að það hafi fyrir þig í framtíðinni að hafa unnið í öðru Norðurlandi?
Þetta hefur gefið mér tækifæri til þess að kynnast annarri menningu og nýjum heimi, fara út fyrir þægindarammann, prófa og upplifa eitthvað nýtt. Ég lærði reyndar ekki mikla norsku í fyrra sumar af því ég vann með fólki alls staðar að og viðskiptavinir voru helst erlendir ferðamenn. Norskan hefur komið meira núna í vetur í vinnunni, en ég bý enn í Noregi.
Ég ætla að leita að framtíðarvinnu í Noregi, en pabbi minn bjó áður fyrr í Noregi í níu ár, ég hafði komið til Noregs nokkrum sinnum og hef alltaf haft einhverja tengingu þangað.
Við vinnu í Flåm Zipline
Hvað myndiru segja við einhvern sem væri að íhuga að sækja um Nordjobb?
Senda inn margar umsóknir og ekki ofhugsa, bara láta vaða. Ég sé ekki eftir að hafa sótt um starf í gegnum Nordjobb. Það sem er þægilegt við Nordjobb er að inná heimasíðunni getur maður flokkað eftir landi eða vinnu og umsóknarferlið er frekar þægilegt. Þegar ég var kominn í samband við vinnveitendurna, þá vildu þau svo fá meðmæli, þannig ég mæli með því að vera klár með meðmælabréf. Stundum vill fólk fá meðmælabréf eða hringja í meðmælendurna.
Þetta var frábær tími sem ég mun aldrei gleyma. Ég kynntist mörgu frábæru fólki og efldist í starfi og varð sjálfstæðari í að takast á við nýjar áskoranir í nýju landi. Svona reynsla opnar á fleiri möguleikum, ég er ennþá í Noregi og hef verið að vinna á skíðasvæði í vetur, eitthvað sem ég hafði ekki séð fyrir mér eftir að ég kom heim frá Interrail ferðinni minni í fyrra vetur.
Aurland, þar sem Jóhann Gísli bjó.